Heiðrún Anna Hlynsdóttir, Golfklúbbi Selfoss, er Íslandsmeistari í holukeppni kvenna 2025 en hún sigraði Pamelu Ósk Hjaltadóttur, Golfklúbbi Mosfellsbæjar, í úrslitaleiknum í dag. Íslandsmótið í holukeppni fór fram á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar.
Þetta er í fyrsta sinn sem kylfingur úr Golfklúbbi Selfoss verður Íslandsmeistari í holukeppni kvenna. Heiðrún Anna hefur leikið frábært golf í sumar og er þetta þriðji sigur hennar á tímabilinu á GSÍ mótaröðinni.
Lítið skildi Heiðrúnu og Pamelu að í leiknum. Þær voru jafnar eftir níu holur og leikurinn hélst jafn fram á 15. holu en þá náði Heiðrún forystu og eftir það fékk hún tvo frábæra fugla í röð, sigraði holur 16 og 17, og tryggði sér titilinn.
Heiðrún Anna lék ekki á fyrsta móti tímabilsins en eftir það hefur hún sigrað á öllum þremur mótum GSÍ mótaraðarinnar. Hún er með yfirburðastöðu á stigalista mótaraðarinnar og stefnir á fleiri titla á tímabilinu.