Heiðar Snær Bjarnason, Golfklúbbi Selfoss, fór holu í höggi í dag á Íslandsmótinu í golfi sem stendur nú yfir á Hvaleyrarvelli Keilis í Hafnarfirði.
Honum tókst að gera það í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu og telja fróðir menn að þetta sé í fyrsta sinn sem kylfingur fer holu í höggi í beinni útsendingu á Íslandi.
Heiðar Snær var á þriðja hring mótsins þegar honum tókst að fara holu í höggi á 17. holu. Hann notaði sexjárn en holan er par þrjú og 187 metrar. Þess má geta að þetta er í þriðja sinn á ferlinum sem Heiðar fer holu í höggi.
Myndband af draumahöggi Heiðars má sjá hér á vef RÚV.
Fjórði og síðasti hringurinn á Íslandsmótinu verður spilaður á morgun en fyrir hann er Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS, í 4. sæti í kvennaflokki á átta höggum yfir pari.
Hjá körlunum er Aron Emil Gunnarsson, GOS, í bestri stöðu af sunnlensku kylfingunum. Aron Emil er í 7. sæti á pari vallarins. Andri Már Óskarsson, GOS, er í 9. sæti, einu höggi yfir pari og Heiðar Snær er í 22. sæti á níu höggum yfir pari. Gamla brýnið Hlynur Geir Hjartarson er í 41. sæti, átján höggum yfir pari.

