Heiðar og Ingi Rafn aðstoða Bjarna

Heiðar Helguson og Ingi Rafn Ingibergsson á Selfossvelli. Ljósmynd/UMFS

Heiðar Helguson og Ingi Rafn Ingibergsson hafa verið ráðnir aðstoðarþjálfarar karlaliðs Selfoss í knattspyrnu. Þeir munu því starfa við hlið Bjarna Jóhannssonar, nýráðins þjálfara liðsins.

Heiðar er öllum knattspyrnuáhugamönnum kunnugur. Hann á að baki fimmtán ára reynslu sem atvinnumaður í knattspyrnu en lengst af spilaði hann á Englandi. Lengst var hann hjá Watford en þar lék hann 174 leiki og skoraði í þeim 55 mörk. Þar að auki spilaði hann fyrir Fulham, QPR, Cardiff og Lilleström. Hann á að baki 55 landsleiki og tólf mörk í þeim. Þjálfaraferill Heiðars er nú þegar hafinn en hann var aðstoðarþjálfari Kórdrengja tímabilin 2021-2022.

Ingi Rafn er Selfyssingum vel kunnugur en hann var aðstoðarþjálfari liðsins á síðasta tímabili. Ingi á einnig langan knattspyrnuferil að baki en hann á tæplega 500 mótsleiki að baki í íslenskri deildarkeppni. Ingi hefur undanfarin ár þjálfað yngri flokka á Selfossi og þekkir allt starf hjá knattspyrnudeildinni út og inn.

Í tilkynningu frá knattspyrnudeild Selfoss segir að þar á bæ séu bundnar miklar vonir við að hæfni og áratugareynsla þessara fyrrum leikmanna muni nýtast deildinni vel á næstu árum í þeirri uppbyggingu sem framundan er.

Fyrri greinFrábær endasprettur skilaði sigri
Næsta greinStjórnendur SS á Hvolsvelli eiga heiður skilinn