Heiðrún Anna og Aron Emil kylfingar ársins

Heiðrún Anna Hlynsdóttir og Aron Emil Gunnarsson voru valin golfkona og golfkarl ársins 2016 hjá Golfklúbbi Selfoss en verðlaunin voru veitt á aðalfundi félagsins í golfskálanum á Svarfhóli síðastliðinn fimmtudag.

Heiðar Snær Bjarnason fékk verðlaun fyrir mestu lækkun forgjafar og Pétur Sigurdór Pálsson var valinn efnilegasti unglingurinn. Háttvísibikarinn hlaut Halldór Ágústsson Morthens.

Einnig voru veitt verðlaun fyrir holukeppni þar sem Aron Emil bar sigur úr bítum og Pétur Sigurdór varð í öðru sæti.

Rekstur Golfklúbbs Selfoss gengur vel en hagnaður var á rekstri klúbbsins og veltan hefur aukist gríðalega síðustu árin. Velta klúbbsins var rúmar 66,2 milljónir króna og jókst um rúmlega 8 milljónir á milli ára. Rekstrargjöld voru tæplega 57,7 milljónir króna en hagnaður ársins eftir afskriftir og fjármagnsliði var tæplega 1,9 milljón króna.

Stjórn GOS 2017 skipa Ástfríður M Sigurðardóttir formaður, Svanur Geir Bjarnason ritari, Helena Guðmundsdóttir gjaldkeri, Páll Sveinsson og Halldór Morthens. Varamenn eru Vignir Egill Vigfússon og Axel Óli Ægisson. Ein breyting var gerð á stjórninni á aðalfundinum, Páll Sveinsson kom inn í stjórn og Axel Óli steig til hliðar og tók sæti í varastjórn.

Á árinu 2016 voru leiknir alls 11.635 hringir á Svarfhólsvelli sem er aukning frá síðasta ári þegar 10.000 hringja múrinn var rofinn í fyrsta sinn. Félagsmenn áttu 4794 hringi, gestir 5837 og 1004 voru spilaðir í mótum.

Fyrri greinFimmta tap Þórs í röð
Næsta greinÁrborg kaupir nýbyggingu undir félagsaðstöðu eldri borgara