Heiðdís framlengir á Selfossi

Varnarmaðurinn Heiðdís Sigurjónsdóttir skrifaði í dag undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss. Hún var lykilmaður í vörn Selfoss í Pepsi-deildinni í sumar og var valin efnilegasti leikmaður félagsins í lok móts.

Heiðdís gekk til liðs við Selfoss frá Hetti fyrir ári síðan. Hún var annar tveggja leikmanna Selfossliðsins sem spilaði hverja einustu mínútu fyrir Selfoss í sumar en liðið náði sínum besta árangri og endaði í þriðja sæti deildarinnar og lék til úrslita í Borgunarbikarnum.

Þá var Heiðdís valin til æfinga með A-landsliði Íslands í haust sem undirstrikar þær framfarir sem hún hefur tekið á Selfossi.

„Við erum mjög ánægð með að Heiðdís hafi ákveðið að vera áfram á Selfossi. Hún er klárlega einn efnilegasti leikmaður landsins og því eðlilegt að mörg lið hafi verið að bjóða henni samning,“ sagði Gunnar Borgþórsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá Selfossi, þegar samningurinn var undirritaður í dag.

Á heimasíðu Selfoss segir Heiðdís að henni hafi líkað mjög vel á Selfossi þetta árið og bætt sig heilmikið sem leikmaður. „Ég vil halda því áfram og veit að á Selfossi fæ ég alla þá hjálp sem ég þarf til þess. Stelpurnar í liðinu, allir stjórnarmenn og fólkið í kringum liðið eru lika algjörir snillingar. Svo erum við með bestu stuðningsmenn landsins sem hefur gríðarlega mikið að segja og hvetur mann til dáða í blíðu og stríðu.“

Þess má geta að Selfoss hefur þegar samið við Chanté Sandiford, einn besta markmann Pepsi-deildarinnar í fyrra, og bandaríska leikmanninn Alyssu Telang sem kemur til með að styrkja liðið mikið á komandi keppnistímabili. Selfoss liðið ætlar sér stóra hluti á komandi tímabili og byggja ofan á þann frábæra árangur sem liðið hefur náð á undanförnum árum.

Fyrri greinÞórsarar glaðir um jólin
Næsta grein3. bekkur í heimsókn hjá slökkviliðinu