Heiðdís til liðs við Selfoss

Varnarmaðurinn efnilegi, Heiðdís Sigurjónsdóttir, skrifaði í dag undir eins árs samning við knattspyrnudeild Umf. Selfoss en hún kemur til liðsins frá Hetti á Egilsstöðum.

Heiðdís er átján ára gömul og er einn efnilegasti leikmaður landsins, „hættulega hröð og hávaxinn miðvörður,“ að sögn Gunnars Borgþórssonar, þjálfara liðsins.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur hún þegar spilað 69 meistaraflokksleiki í deild og bikar með Hetti og skorað 29 mörk, en hún var fyrirliði Hattar á síðasta keppnistímabili. Auk þess hefur hún verið fastamaður í U17 og U19 ára landsliðum Íslands, leikið 14 landsleiki og skorað í þeim eitt mark.

„Mér líst mjög vel á Selfoss og ég held að ég eigi eftir að bæta mig mikið hérna. Gunni var duglegur að sannfæra mig en ég þekki líka margar stelpur hérna, bæði úr fótboltalandsliðunum og líka síðan ég var í frjálsum,“ sagði Heiðdís í samtali við sunnlenska.is. „Ég var í frjálsum og fótbolta fyrir austan en svo kom að því að ég þurfti að velja á milli og þá valdi ég fótboltann,“ sagði Heiðdís sem á meðal annars Íslandsmeistara- og Unglingalandsmótstitla í langstökki í verðlaunasafni sínu.
Nokkur lið í Pepsi-deildinni föluðust eftir kröftum Heiðdísar fyrir komandi tímabil en að lokum valdi hún Selfoss. „Það voru nokkur lið í bænum sem höfðu áhuga en það fór ekki langt. Ég æfði með Þór/KA og leist alveg vel á mig þar, en valdi svo Selfoss. Ég er búin að mæta á eina æfingu og það var gott tempó og mér leist vel á hópinn og þetta er mjög spennandi kostur fyrir mig,“ sagði Heiðdís ennfremur en hún fer í Fjölbrautaskóla Suðurlands eftir áramót og stefnir á stúdentsprófið í vor.
Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, er ánægður með nýja leikmanninn. „Þetta er góður liðsstyrkur fyrir okkur. Heiðdís kemur sterk inn í ungt og efnilegt Selfosslið sem heldur uppbyggingunni áfram með þessari undirskrift,“ sagði Gunnar í samtali við sunnlenska.is eftir undirskriftina.