„Hefðum viljað sækja sigurmarkið“

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss gerði 1:1 jafntefli við Þór/KA í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu í kvöld en liðin mættust á Selfossvelli.

„Við vorum góðar í 30 mínútur í fyrri hálfleik en síðan kom fimmtán mínútna kafli sem var ekki eins góður. Við töluðum um það í klefanum að koma mun einbeittari inn í seinni hálfleikinn og mér fannst við gera það vel. Við byrjuðum að tala betur og vinna betur saman og það skilaði sér með jöfnunarmarki. Ég hefði auðvitað vilja sækja sigurmarkið líka en við verðum að sætta okkur við þetta,“ sagði Óttar Guðlaugsson, aðstoðarþjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Leikurinn var mjög rólegur framan af og fátt um færi en það voru gestirnir sem voru fyrri til að skora. Karen María Sigurgeirsdóttir kom þeim yfir á 34. mínútu með glæsilegu skoti. Þór/KA hafði undirtökin fram að leikhléi en staðan var 0-1 í hálfleik.

Selfossliðið mætti ákveðið til leiks í seinni hálfleik og hleypti gestunum ekkert áleiðis. Þrátt fyrir að vera með boltann nær allan hálfleikinn tókst Selfyssingum ekki að skapa nein færi. Þegar tuttugu mínútur voru eftir breyttu Selfossþjálfararnir leikskipulaginu og fækkuðu í vörninni. Það skilaði árangri níu mínútum síðar þegar Eva Núra Abrahamsdóttir skoraði með glæsilegu skoti úr vítateignum eftir sendingu frá Barbáru Sól Gísladóttur. Þrátt fyrir ágætar sóknir á lokakaflanum tókst Selfyssingum ekki að finna sigurmarkið og niðurstaðan varð 1-1 jafntefli.

Selfoss er áfram í 3. sæti deildarinnar, nú með 18 stig og Þór/KA er í 7. sæti með 13 stig.

Fyrri greinHringrásarhagkerfið í Hveragerði fær styrk
Næsta greinHamar í toppmálum