„Hef unnið eftir stefnu Benna vinar míns“

„Það er ótrúlega gaman fyrir svona lítið samfélag að komast í bikarúrslit,“ segir Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar sem lagði Keflavík í undanúrslitum á mánudagskvöld. Þór tekur á móti FSu í Domino's-deildinni í kvöld.

Einar Árni var í viðtali hjá Gesti frá Hæli í Sportþættinum á Suðurland FM í vikunni. Hann sagði árangurinn í bikarnum einnig ánægjulegan í ljósi þess að liðið er skipað heimamönnum.

„Við erum með níu leikmenn fædda og uppalda í herbúðum Þórs af tólf leikmönnum. Við erum líka með lang yngsta lið deildarinnar þó Grétar Ingi hækki reyndar aldurinn svolítið.“

Einar segist stoltur af öllum þeim sem vinna í kringum körfuboltann í Þorlákshöfn og árangurinn sé lygilegur en hann fylgi eftir því uppbyggingastarfi sem Benedikt Guðmundsson hafi verið byrjaður á.

Í kvöld er svo stórleikur í Domino’s-deildinni þegar FSu frá Selfossi kemur í heimsókn í Þorlákshöfn.

„FSu eru stórhættulegir og eiga fullt inni, þeir fór t.d. illa með Keflavík og við þurftum að hafa okkur alla við til að vinna þá eins og síðast. Ég vonast eftir fullri höll í Þorlákshöfn [í kvöld] og svo að sjálfsögðu troðfullri Laugardalshöll þar sem allir verða í grænu og Sunnlendingar sameinast í eitt lið í þennan úrslitaleik, enda veitir ekki af stuðningnum.“

Hlusta má á viðtalið við Einar Árna í spilaranum hér að neðan:

Fyrri greinHamar skoraði eitt stig í 4. leikhluta
Næsta greinRangárþing eystra veitir akstursstyrki