„Hef líklega aldrei slegið svona vel“

Hlynur Geir Hjartarson, Golfklúbbi Selfoss, náði góðum árangri á Securitas-mótinu á Eimskipsmótaröðinni í golfi sem lauk í Vestmannaeyjum á laugardag.

Hlynur Geir og Andri Þór Björnsson, Golfklúbbi Reykjavíkur, voru efstir og jafnir að loknum þremur hringjum, á fjórum höggum undir pari. Því var gripið til bráðabana þar sem Andri Þór hafði betur en úrslitin réðust á annarri holu.

Þrátt fyrir að hafa misst af 1. sætinu var Hlynur ánægður með helgina.

„Jú, ég spilaði mjög vel alla helgina. Púttin hefðu mátt detta oftar, en ég sló vel og hef líklega aldrei slegið svona vel allan minn feril,“ sagði Hlynur í samtali við sunnlenska.is.

„Ég hefði átt að klára þetta í bráðabananum, en ég átti 2-3 feta pútt fyrir sigri á fyrstu holu sem klikkaði. En er samt ánægður með góða helgi. Ég hefði ekki komst í þennan bráðabana nema ég hefði slegið nokkur frábær högg á síðustu holunum, svo maður verður að reyna sjá jákvæðu hlutina í þessu,“ sagði Hlynur ennfremur.

Fyrri greinLokunarhlið við Dyrhólaey skemmt
Næsta grein„Sætara verður það ekki“