„Hef ekki farið inn í hringinn í tíu ár“

Guðbjörg Viðarsdóttir, HSK, gerði sér lítið fyrir og tryggði sér landsmótsmeistaratitilinn í kringlukasti kvenna í dag. Guðbjörg er 42 ára gömul og hefur ekki keppt í kringlu í tíu ár.

„Ég var að vona að það myndi ekki rigna því háll hringur er helsti óvinur kringlukastarans. Ég fór þess vegna óskaplega rólega af stað og ætlaði að taka þetta á tækninni. Kastserían var skelfileg hjá mér, fyrstu tvö undir þrjátíu metrunum og það þriðja fór í búrið. En svo kýldi ég á þetta í úrslitunum og þá kom þetta,“ sagði Guðbjörg í samtali við sunnlenska.is en sigurkast hennar reyndist 38,09 metrar. Það er besti árangur íslenskrar konu á árinu. Er þá nokkur ástæða til að hætta að keppa?

„Nei, ég sé ekki fram á að keppa meira, en það var gaman að vera með. Ég keppti síðast á landsmóti árið 2001 en það eru tíu ár síðan ég fór inn í kasthring síðast. Ég fór aðeins að leika mér fyrir hálfum mánuði og sá þá að ég gat alveg verið með,“ segir Guðbjörg sem þurfti ekki mikla sannfæringu frá liðstjóranum Ólafi Guðmundssyni til að vera með á mótinu.

„Óli sagði „ég er með og Nonni [Jón Arnar] og Sigurbjörn“ og þegar ég sá að það var þessi aldurshópur sem var að taka þátt þá sagði ég já,“ segir Guðbjörg hlæjandi. „Landsmót 50+ eru líka hvatning. Maður sér að það er hægt að fara af stað þó að maður sé gamall – þó ég eigi nokkur ár enn eftir að ná 50+,“ segir Guðbjörg.

„Það hefur alltaf verið ungmennafélagsandi yfir þessum mótum hjá HSK og auðvitað fór ég inn í þetta þessvegna líka. Maður finnur samt ekki gömlu landsmótsstemninguna hér í dag. Það var stemmning í undirbúningnum en veðrið í dag er engu líkt svo að stemmningin var minni í keppninni. En við vorum að það batni á morgun,“ sagði Guðbjörg að lokum en þá sinnir hún starfi kaststjóra í sleggju- og kringlukasti.

Fyrri greinBjörgunarfélagið kallað út vegna fjúkandi tjalda
Næsta grein„Það er ekkert að þessu veðri“