„Hefðum viljað halda meiri spennu í leiknum“

Selfyssingar eru úr leik í Coca-Cola bikar karla í handbolta eftir 23-28 tap gegn bikarmeisturum ÍR í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi í kvöld.

Leikurinn fór hratt af stað og Selfyssingar héldu í við ÍR-ingana allt þar til fimmtán mínútur voru liðnar af leiknum. Þá skoraði ÍR fjögur mörk í röð og breytti stöðunni úr 9-10 í 9-14. Selfoss átti ekki svar eftir þetta þrátt fyrir ágætar rispur inn á milli. Staðan í hálfleik var 13-18 en eins og tölurnar sýna var Selfossvörnin galopin í fyrri hálfleik.

Selfyssingar löguðu varnarleikinn í seinni hálfleik en þá fór sóknin að hiksta og munurinn hélst í 4-5 mörkum lengst af. Eftir slakan fyrri hálfleik þar sem hann varði aðeins tvö skot á fyrstu sautján mínútunum kom Sebastian Alexandersson aftur inn í markið í seinni hálfleik og varði tólf skot. Basti var með 54,4% markvörslu í seinni hálfleik.

Einar Sverrisson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu báðir 5 mörk fyrir Selfoss og Andri Már Sveinsson 5/4. Hörður Másson og Magnús Már Magnússon skoruðu 2 mörk og þeir Jóhannes Snær Eiríksson, Sverrir Pálsson, Atli Kristinsson og Andri Hrafn Hallsson skoruðu allir 1 mark. Sebastian varði 14 skot og Sverrir Andrésson 2.

„Þetta var mjög kaflaskipt. Við hefðum átt að vera búnir að jafna á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks en það er bara mjög erfitt að vinna upp fimm marka forskot á móti svona góðu liði. Menn eru að flýta sér aðeins of mikið og hjá þessum yngri gæti þetta verið einhver yfirspenna. Við náðum ekki að sýna okkar bestu hliðar hér í kvöld, við erum með hörkulið og hefðum gjarnan viljað halda meiri spennu í þessum leik,“ sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Fyrri greinTýndist á Þingvöllum – fannst á hóteli í Reykjavík
Næsta greinReykræst eftir lítilsháttar eld í Feng