„Hefði viljað meira út úr leiknum“

Hamar og Reynir Sandgerði gerðu 1-1 jafntefli á Grýluvelli í kvöld þegar liðin mættust í 2. deild karla í knattspyrnu.

Leikurinn var jafn allan tímann en varnir beggja liða héldu vel og mörkin létu því á sér standa. Hamarsmenn voru fyrri til að skora en Axel Magnússon kom Hamri yfir um miðjan fyrri hálfleik með fjórða marki sínu í fjórum leikjum í röð.

Hamar leiddi 1-0 í hálfleik en snemma í seinni hálfleik fengu Reynismenn vítaspyrnu og Jóhann Magni Jóhannsson jafnaði úr henni. Eftir þetta skiptust liðin á að sækja en fátt var um færi. Reynismenn misstu leikmann útaf með rautt spjald þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Hamri tókst þó ekki að nýta liðsmuninn og gestirnir voru nær því að skora. Björn M. Aðalsteinsson varði hins vegar vel í marki Hamars og í kjölfarið hreinsaði Vilhjálmur Vilhjálmsson á marklínu.

„Þó að ég þiggi hvert stig sem við fáum með þökkum þá hefði ég viljað fá meira út úr leiknum. Við eigum ekki að sætta okkur við annað en þrjú stig á Grýluvelli og ég er svekktur yfir því að við náðum ekki að nýta okkur liðsmuninn í lokin. Reynir er með einn besta mannskapinn í deildinni og við töpuðum 6-1 fyrir þeim í fyrri umferðinni. Við hefðum átt að kvitta betur fyrir það í kvöld,“ sagði Jón Aðalsteinn Kristjánsson, þjálfari Hamars, í samtali við sunnlenska.is í leikslok.