Haukur yngsti leikmaðurinn á HM í sögu Íslands

Haukur Þrastarson í Lanx­ess-Ar­ena í kvöld. Ljósmynd/HSÍ

Vínrauður andi sveif yfir Kölnarvötnum í kvöld þegar íslenska landsliðið í handbolta mætti Frakklandi á Heimsmeistaramótinu í handbolta í Þýskalandi.

Haukur Þrastarson var kallaður inn í leikmannahóp íslenska liðsins fyrir leikinn í kvöld eftir að hafa verið til taks sem sautjándi maður í hóp fram að þessu.

Haukur er yngsti leikmaðurinn sem tekur þátt á heimsmeistaramótinu í ár. Hann er einnig yngsti leikmaðurinn á HM í sögu Íslands, en hann er 17 ára gamall og spilaði í kvöld sinn sjöunda A-landsleik.

Frakkar höfðu forystuna í leiknum allan tímann en eftir erfiða byrjun í leiknum sýndi hið unga lið Íslands skemmtilega takta. Staðan í leikhléi var 15-11 en lokatölur urðu 31-22.

Það var gæsahúðarstund fyrir Selfyssinga að sjá þá frændur frá Hurðarbaki, Hauk, Teit Örn Einarsson og Elvar Örn Jónsson fara fremsta í sóknarleik Íslands en þeir áttu allir góða spretti í leiknum. Elvar Örn var besti leikmaður Íslands í kvöld og markahæstur með 5 mörk. Teitur Örn skoraði 3 mörk, Haukur 2 og Bjarki Már Elísson skoraði einnig 2 mörk en Ómar Ingi Magnússon komst ekki á blað.

Áhorfendur (og ættingjar) fóru líka á flug á Twitter, eins og sjá má hér að neðan.

Fyrri greinTveir menn lentu í snjóflóði
Næsta greinViðvörunin orðin græn: Hríðarlægðin hittir ekki á landið