Haukur og Perla best á Selfossi

Haukur Þrastarson og Perla Ruth Albertsdóttir voru útnefnd leikmenn ársins á vel heppnuðu lokahófi handknattleiksdeildar Selfoss sem fram fór á Hótel Selfossi í gærkvöldi.

Það var mikið um dýrðir á hófinu þar sem frábæru tímabili var fagnað. Meðal atriða sem boðið var uppá var happdrætti, uppistand frá Andra Ívarssyni, uppboð á treyjum ásamt því að Bjartmar Guðlaugsson kom sem leynigestur og tók nokkur lög. Gunnar Sigurðarson stýrði hátíðarhöldunum með harðri hendi.

Hjá kvennaliðinu var Perla Ruth leikmaður ársins, ásamt því að vera markadrottning. Ída Bjarklind Magnúsdóttir var valin efnilegasti leikmaðurinn. Hulda Dís Þrastardóttir var varnarmaður ársins, Kristrún Steinþórsdóttir sóknarmaður ársins og Harpa Sólveig Brynjarsdóttir fékk baráttubikarinn.

Hjá körlunum var Haukur bæði valinn bestur og efnilegastur. Einar Sverrisson var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar og Teitur Örn Einarsson var markakóngur liðsins ásamt því að vera sóknarmaður ársins. Hergeir Grímsson var valinn varnarmaður ársins og Eyvindur Hrannar Gunnarsson fékk baráttubikarinn.

Árlega er félagi ársins kosinn, en að þessu sinni var það Sigurður Þór Ástráðsson.

Í fyrsta skipti var veitt viðurkenning til þeirra leikmanna sem hafa spilað 100 leiki fyrir félagið. Þau eru Áslaug Ýr Bragadóttir, Einar Sverrisson, Eyvindur Hrannar Gunnarsson, Guðni Ingvarsson, Helgi Hlynsson, Hergeir Grímsson, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Hulda Dís Þrastardóttir, Kristrún Steinþórsdóttir, Perla Ruth Albertsdóttir og Sverrir Pálsson.

Fyrri greinTveir í lífshættu eftir slys á Villingavatni
Næsta greinLeit haldið áfram í dag