Haukur með tíu mörk í háspennuleik

Haukur Þrastarson skoraði 7/1 mörk í kvöld. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfyssingar unnu góðan sigur á Aftureldingu í háspennuleik í Mosfellsbæ í kvöld þegar keppni hófst aftur í Olísdeild karla í handbolta eftir jóla- og HM-frí.

Leikurinn var jafn fyrsta korterið en þá skoruðu Selfyssingar sex mörk í röð og breyttu stöðunni úr 7-7 í 7-13. Mosfellingar hresstust þá aðeins og staðan var 12-16 í leikhléi.

Selfoss jók forskotið í sex mörk í upphafi seinni hálfleiks og hafði frumkvæðið í leiknum lengst af. Uppúr miðjum seinni hálfleik nálguðust heimamenn þó óðfluga og þeir náðu að minnka muninn í eitt mark, 22-23, þegar rúmar tíu mínútur voru eftir. 

Lokakaflinn var æsispennandi en Haukur Þrastarson kom Selfyssingum yfir, 28-29, með sínu tíunda marki í leiknum þegar hálf mínúta var eftir. Mosfellingar brunuðu í sókn en Pawel Kiepulski reyndist hetja Selfyssinga því hann varði vel síðasta skot Aftureldingar á lokasekúndunni.

Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 10/3 mörk. Atli Ævar Ingólfsson skoraði 6, Elvar Örn Jónsson 5/1, Einar Sverrisson 3, Guðjón Baldur Ómarsson og Hergeir Grímsson 2 og Guðni Ingvarsson 1.

Pawel Kiepulski varði 8/2 skot í marki Selfoss og Sölvi Ólafsson 2.

Selfyssingar eru nú í 3. sæti deildarinnar með 20 stig en Afturelding er í 5. sæti með 15 stig.

Fyrri greinAppelsínugul viðvörun fyrir Suðurland: Vegum lokað og hætta á foktjóni
Næsta greinHellisheiði og Þrengslum lokað í sólarhring