Haukur Íslandsmeistari í torfæru

Selfyssingurinn Haukur Þorvaldsson tryggði sér í gær Íslandsmeistaratitilinn í torfæruakstri í flokki götubíla þegar hann sigraði í Greifatorfærunni á Akureyri.

„Þetta var bara spennandi og skemmtilegt. Ég gerði eiginlega út um þetta í þriðju brautinni þar sem ég fór einn upp og eftir það þurfti ég ekki að taka neina áhættu. Það var samt fiðringur í manni og ég neita því ekki að síðustu tíu, fimmtán metrarnir í lokabrautinni voru spennandi,“ sagði Haukur í samtali við sunnlenska.is.

Haukur tryggði sér titilinn þrátt fyrir að ein umferð sé eftir af Íslandsmótinu en hann hefur unnið í öllum keppnum ársins nema einni. Hann fékk einnig nafnbótina Greifinn 2010 á keppninni í gær þar sem hann var langstigahæsti ökumaður keppninnar.

„Ég er ekki endilega að keyra betur en í fyrra en ég hef sloppið við bilanir í ár. Í fyrra missti ég af sigri í tveimur keppnum vegna bilana en nú hefur allt gengið upp. Það má heldur ekki gleyma því að við bræðurnir erum með frábæra aðstoðarmenn og þetta er liðssigur en ekki bara sigur ökumannsins. Við Hafsteinn kunnum ekkert að gera við, en við kunnum að keyra,“ sagði Haukur kátur að lokum.

Hafsteinn, bróðir Hauks, sigraði í flokki sérútbúinna bifreiða eftir harða keppni við Jóhann Rúnarsson. Úrslitin á Íslandsmótinu í sérútbúna flokknum munu ekki ráðast fyrr en í síðustu umferðinni en þar hefur Jón Örn Ingileifsson titilinn nánast í höndunum en Hafsteinn er sá eini sem getur ógnað honum. Jón Örn varð fimmti í gær á lánsbíl en vélin er ónýt í Kórdrengnum. Benedikt Sigfússon varð sjötti og Róbert Agnarsson náði í sitt fyrsta stig í sumar en hann varð áttundi.

Staðan í Íslandsmótinu að loknum fimm umferðum:

Sérútbúnir:
1. Jón Örn Ingileifsson – 44 stig
2. Hafsteinn Þorvaldsson – 35 stig
3. Jóhann Rúnarsson – 30 stig
4. Ólafur Bragi Jónsson – 21 stig
5. Benedikt Helgi Sigfússon – 18 stig
6. Leó Viðar Björnsson – 14 stig
7. Guðlaugur Sindri Helgason – 11 stig
8. Björn Bragi Sævarsson – 9 stig
9. Bjarki Reynisson – 6 stig
10. Daníel Ingimundarson – 3 stig
11. Jóhann Birgir Magnússon – 1 stig
12. Róbert Agnarsson – 1 stig

Götubílar:
1. Haukur Þorvaldsson – 48 stig
2. Stefán Bjarnhéðinsson – 32 stig
3. Steingrímur Bjarnason – 32 stig
4. Magnús Sigurðsson – 16 stig
5. Sigurður Þór Jónsson – 14 stig
6. Guðni Jónsson – 13 stig
7. Hlynur B. Sigurðsson – 12 stig
8. Ívar Guðmundsson – 10 stig
9. Hannes Þórarinsson – 7 stig
10. Ingólfur Guðvarðsson – 4 stig

Fyrri greinÓk á átta bíla við Landeyjahöfn
Næsta greinAllir sluppu úr bílveltu