Haukur fór á kostum í bikarsigri Selfoss

Selfyssingar tryggðu sér örugglega sæti í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í handbolta eftir sigur á KA á Akureyri í kvöld, 22-29.

KA er í toppsæti Grill 66 deildarinnar en Selfoss í 4. sæti Olísdeildarinnar. Það var mikil spenna fyrir leiknum en þar mættust þjálfararnir Stefán Árnason, fyrrverandi þjálfari Selfoss, og Patrekur Jóhannesson, fyrrverandi leikmaður KA.

Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar en þá skoruðu Selfyssingar fimm mörk í röð og breyttu stöðunni úr 5-5 í 5-10. Munurinn varð mestur sjö mörk í fyrri hálfleik, 9-16, en KA skoraði síðustu þrjú mörk fyrri hálfleiks og staðan í leikhléi var 12-16.

Leikurinn var svo í öruggum höndum Selfyssinga sem náðu sjö marka forskoti um miðjan seinni hálfleikinn og munurinn hélst svipaður út leikinn.

Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk og hann var sömuleiðis frábær í vörninni með sextán brotin fríköst. Árni Steinn Steinþórsson skoraði 6 mörk úr 6 skotum, Einar Sverrisson 5, Hergeir Grímsson og Atli Ævar Ingólfsson 4 og Teitur Örn Einarsson 1.

Helgi Hlynsson varði 5 skot í marki Selfoss og var með 22% markvörslu.

Dregið verður í 8-liða úrslitin á morgun en auk Selfyssinga verða í pottinum FH, Haukar, ÍBV, Fram, Þróttur R, Grótta og Valur.

Fyrri greinFisk­eldi í Þor­láks­höfn þarf að fara í um­hverf­is­mat
Næsta greinTímamót í starfi Miðflokksins