Haukarnir sterkari í seinni hálfleik

Harpa Sólveig Brynjarsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði stórt þegar liðið heimsótti Hauka á Ásvelli í Hafnarfirði í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld.

Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar en þá tóku Haukar við sér og náðu fjögurra marka forskoti. Selfyssingar létu það ekki á sig fá, skoruðu fjögur mörk í röð og jöfnuðu 9-9, þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum. Staðan var 15-12 í hálfleik.

Haukar voru sterkari í síðari hálfleik og náðu nokkuð góðu þegar leið á leikinn. Lokatölur urðu 33-20.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk og þær Harpa Sólveig Brynjarsdóttir og Sarah Boye Sörensen skoruðu báðar 4 mörk. Ída Bjarklind Magnúsdóttir skoraði 2 og þær Tinna Sigurrós Traustadóttir, Rakel Guðjónsdóttir, Agnes Sigurðardóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 10 skot í marki Selfoss og var með 24% markvörslu.

Selfoss er í botnsæti deildarinnar með 4 stig en Haukar í 3. sæti með 16 stig.

Fyrri greinFyrsti Sunnlendingur ársins er Selfyssingur
Næsta grein„Allt of mörg skáld ofan í skúffu“