Haukar skrefinu á undan

Jordan Semple. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Haukar höfðu betur í fyrsta leiknum í einvíginu gegn Þór Þorlákshöfn í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta. Eftir leik liðanna í Ólafssal í Hafnarfirði í kvöld er staðan 1-0 fyrir rauðum.

Það var ekki alveg kveikt á Þórsurum í upphafi leiks. Haukar leiddu frá fyrstu mínútu, komust í 10-2 en Þórsarar höfðu minnkað muninn í 19-14 undir lok leikhlutans. Haukar voru skrefinu á undan lengst af 2. leikhluta en um hann miðjan kom Davíð Arnar Ágústsson Þór yfir í fyrsta og eina skiptið, 34-35. Staðan í hálfleik var 46-39.

Haukar byrjuðu af krafti í seinni hálfleik og náðu strax 16 stiga forskoti. Þórsarar svöruðu og minnkuðu muninn í 60-57 undir lok 3. leikhluta en í 4. leikhluta náðu Haukar að halda aftur af Þórsurum allt til loka og heimamenn sigruðu að lokum 90-83.

Jordan Semple var bestur í liði Þórs í kvöld með 23 stig og 11 stoðsendingar. Vincent Shahid hitti mjög illa og helmingurinn af 18 stigum hans kom af vítalínunni. Styrmir Snær Þrastarson var öflugur með 17 stig, 7 stoðsendingar og 5 fráköst og Pablo Hernandez skoraði 12 stig.

Liðin mætast næst í Þorlákshöfn á laugardaginn, þann 8. apríl, kl. 17:00. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer í undanúrslitin.

Fyrri greinTæpum 40 milljónum króna úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Suðurlands
Næsta greinNáðu sér ekki almennilega í gang