Haukar jöfnuðu í Þorlákshöfn

Þór og Haukar mættust í kvöld í annað sinn í einvígi liðanna í 8-liða úrslitum Domino's-deildar karla í körfubolta. Að þessu sinni höfðu Haukar betur á parketinu í Þorlákshöfn.

Þórsarar unnu fyrsta leikinn á útivelli þannig að nú er staðan jöfn í einvíginu, 1-1. Þrjá sigra þarf til þess að komast í undanúrslitin.

Haukar byrjuðu betur í leiknum og leiddu eftir 1. leikhluta, 12-19. Þórsarar komu hins vegar vel til baka í 2. leikhluta og höfðu yfir í hálfleik, 35-33. Mikil barátta einkenndi leikinn á báða bóga og var varnarleikurinn í hávegum hafður.

Í síðari hálfleik náðu Haukar tíu stiga forskoti seint í 3. leikhluta og voru skrefinu á undan í leiknum eftir það. Þórsarar náðu ekki að svara með áhlaupi í síðasta fjórðungnum og lokatölur leiksins urðu 65-76.

Þriðji leikur liðanna verður að kvöldi skírdags í Hafnarfirði og fjórði leikurinn í Þorlákshöfn þriðjudagskvöldið 29. mars.

Tölfræði Þórs: Vance Hall 24 stig/6 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 12 stig/11 fráköst/4 varin skot, Halldór Hermannsson 12 stig/6 fráköst, Ragnar Bragason 8 stig/4 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 5 stig, Emil Karel Einarsson 4 stig.

Fyrri grein„Hér er háborg íslenskrar hrossaræktar“
Næsta greinHeildarkostnaður við framkvæmdina 670,5 milljónir króna