Haukar höfðu betur í bleytunni

Javier Lacalle og Joseph Yoffe skoruðu mörk Selfoss sem töpuðu í kvöld, 2-3, þegar Haukar komu í heimsókn á Selfossvöll í 1. deild karla í knattspyrnu.

Leikurinn var jafn og fjörugur í fyrri hálfleik þar sem leikmennirnir áttu oft í vandræðum með að hemja sig á blautum vellinum. Haukar fengu fyrsta færið þegar Andy Pew var nálægt því að skora sjálfsmark á sjöundu mínútu. Í næstu sókn fóru Selfyssingar í fyrsta sinn vel inn á vallarhelming Hauka og það skilaði marki þegar Javier Lacalle laumaði boltanum framhjá markverði Hauka eftir sendingu frá Joe Yoffe.

Fjórum mínútum síðar átti Yoffe stangarskot eftir góða sókn Selfoss og í kjölfarið sköpuðu Selfyssingar usla í sínum eigin vítateig þegar Þorsteinn Daníel Þorsteinsson átti ennþá betri sjálfsmarkstilraun en Andy. Áfram voru Selfyssingar aðgangsharðir en þegar leið á fyrri hálfleikinn náðu Haukar góðum tökum á leiknum. Eitthvað varð undan að láta en jöfnunarmarkið var þó kostulegt því aukaspyrna af löngu færi frá hægri sigldi yfir allan pakkann í teignum og fór í stöngina og inn.

Haukar voru sterkari síðasta korterið í fyrri hálfleik og á 43. mínútu skoraði kom Brynjar Benediktsson frá Nefsholti þeim yfir með glæsilegu marki þar sem hann fékk nógan tíma fyrir utan vítateig Selfoss. 1-2 í hálfleik.

Þriðja mark Hauka kom strax á 3. mínútu síðari hálfleiks eftir að Selfyssingar misstu boltann á slæmum stað og Haukar komust í gegn þrír á móti einum.

Framan af seinni hálfleik var jafnræði með liðunum en þegar leið á þyngdust sóknir Selfoss og mark númer tvö lá í loftinu. Það leit dagsins ljós á 71. mínútu þegar Þorsteinn Daníel sendi boltann inn á teiginn og þar potaði Yoffe honum inn úr þröngu færi.

Á lokamínútunum náðu Selfyssingar í tvígang að skapa hættu upp við mark gestanna án þess að ná að klára sóknirnar með marki en Haukar vörðust skipulega á lokakaflanum og stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar.

Þriðju umferð deildarinnar er ekki lokið en sem stendur eru Selfyssingar í áttunda sæti með þrjú stig og gætu misst tvö lið uppfyrir sig þegar þriðju umferðinni lýkur.

Fyrri greinFerðaþjónustubændur leggja sinn eigin ljósleiðara
Næsta greinSASS opnar starfsstöð á Hvolsvelli