Haukar draga kæruna til baka – Selfoss tvöfaldur sigurvegari

Handknattleiksdeild Hauka hefur dregið til baka kæruna í stóra treyjumálinu sem kom upp eftir viðureign Selfoss og Hauka síðastliðið miðvikudagskvöld.

Selfoss sigraði 28-25 en daginn eftir leik kærðu Haukar framkvæmd leiksins til dómstóls HSÍ og vildu að leikurinn yrði endurtekinn. Ástæðan var sú að Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir spilaði rúmlega eina mínútu undir lok leiks í treyju með röngu númeri, eftir að leikmaður Hauka hafði rifið treyju utan af henni.

„Við, fulltrúar Selfoss, hittum fulltrúa Hauka í gær á stuttum fundi þar sem málin voru rædd. Þeir hringdu svo í mig síðdegis í gær og tilkynntu mér að þeir myndu draga kæruna til baka í dag [sunnudag],“ sagði Magnús Matthíasson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.

„Kæra Hauka vakti mikla athygli enda ekki á hverjum degi sem handboltalið leita úrslita utan vallar sem ekki hafa fengist innan hans. Málið hefur kostað okkur þónokkra fyrirhöfn enda erfitt að eiga við stórt félag og áhrifamikið sem hefur yfir að ráða her lögspekinga. Við nutum hjálpar þess ágæta lögfræðings Sverris Sigurjónssonar hjá Land lögmönnum sem hefur verið okkur til ráðgjafar í máli þessu,“ segir Magnús ennfremur og bætir við að óhætt sé að segja að viðbrögðin hafi verið öll á þann veg að fólk bæði innan og utan handknattleikshreyfingarinnar hafi furðað sig á kærunni.

„Handknattleiksdeild Selfoss vill alla daga leita leiða til að byggja hér upp sterk handboltalið, við viljum ekki taka þátt í lagaklækjum og málarekstri þótt við viðurkennum rétt allra til að leita réttar síns. Við Selfyssingar stöndum uppi sem tvöfaldir sigurvegarar eftir þetta mál,“ sagði Magnús að lokum.

Eftirfarandi tilkynning hefur verið birt á heimasíðu Hauka:

Handknattleiksdeild Hauka dregur kæru framlagða vegna leiks Selfoss og Hauka í Olísdeild kvenna sem fram fór 25. Janúar sl. hér með til baka.
Haukar munu taka málið upp á öðrum vettvangi.
Þorgeir Haraldsson
Formaður handknattleiksdeildar Haukar
President Haukar handball

Fyrri greinBiskupstungnabraut lokað vegna umferðarslyss
Næsta greinNý hjúkrunardeild tekin í notkun á Lundi