Háspenna þegar Þórsarar fóru í undanúrslit

Glynn Watson fór á kostum gegn Grindavík í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs eru komnir í undanúrslit Íslandsmótsins í körfubolta eftir sigur á Grindavík í fjórða leik liðanna í kvöld, 86-90. Þór vann einvígið 3-1.

Leikurinn í kvöld var æsispennandi og munurinn á liðunum varð aldrei meiri en tíu stig. Það var frábær stemning eins og oft áður í Grindavík og heimamenn nærðust á henni og hleyptu Þórsurum ekki í þann flæðandi körfubolta sem þeir eru þekktir fyrir.

Staðan í hálfleik var 42-48, Þórsurum í vil, en Grindvíkingar komu sterkir inn í seinni hálfleikinn og höfðu frumkvæðið allt þar til í byrjun fjórða leikhluta að Þórsarar þéttu vörnina og fengu fínar körfur í kjölfarið. Það var boðið upp á háspennu á lokakaflanum en eftir að Þórsarar voru komnir í bónus klikkaði Glynn Watson aldrei á vítalínunni á meðan Grindvíkingar hikstuðu og meistararnir fögnuðu góðum sigri.

Glynn Watson átti stórleik fyrir Þór, skoraði 24 stig, tók 8 fráköst og sendi 7 stoðsendingar.

Þórsarar eru komnir í undanúrslit deildarinnar og andstæðingurinn þar verður Valur.

Tölfræði Þórs: Glynn Watson 24/8 fráköst/7 stoðsendingar, Luciano Massarelli 17/7 stoðsendingar, Kyle Johnson 15/8 fráköst, Ronaldas Rutkauskas 14/7 fráköst, Daniel Mortensen 13/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 3, Ragnar Örn Bragason 3, Tómas Valur Þrastarson 1, Davíð Arnar Ágústsson 4 fráköst.

Fyrri greinDatt í sjóinn á þjóðhátíð
Næsta greinÞrjú tilfelli fuglaflensu staðfest á Suðurlandi