Háspenna lífshætta í Þorlákshöfn

Adomas Drungilas var drjúgur fyrir Þórsara með 28 stig, 17 fráköst og 7 stoðsendingar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn tapaði naumlega gegn Tindastóli á heimavelli í stórskemmtilegum leik í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld.

Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti og leiddu 31-21 eftir 1. leikhluta en staðan í hálfleik var 57-51.

Gestirnir svöruðu fyrir sig í 3. leikhluta og þeir komust yfir með því að skora þrettán síðustu stigin í leikhlutanum, 72-79. Fjórði leikhluti var æsispennandi og þegar Tindastóll virtist ætla að ná undirtökunum komu Þórsarar til baka og jöfnuðu 93-93 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Sú karfa tryggði Þórsurum framlengingu því körfuhringirnir voru lokaðir á síðustu sekúndunum þar sem bæði lið fengu tækifæri til þess að tryggja sér sigurinn í venjulegum leiktíma.

Þór náði smátt og smátt völdum í framlengingunni en gamli félagi þeirra Nik Tomsick reyndist þeim óþægur ljár í þúfu á lokasekúndunum því hann skoraði fimm síðustu stig leiksins og negldi þristi í andlitið á Þórsurum þegar fimmtán sekúndur voru eftir og sú negla tryggði Tindastóli 103-104 sigur.

Þrátt fyrir tapið er Þór áfram í 3. sæti deildarinnar með 8 stig en Tindastóll er í 9. sæti með 6 stig.

Tölfræði Þórs: Adomas Drungilas 28/17 fráköst/7 stoðsendingar, Callum Lawson 24/9 fráköst, Larry Thomas 19/5 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 15/5 fráköst/7 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 8/4 fráköst/5 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson 5, Halldór Garðar Hermannsson 4.

Fyrri greinRófurass í listasafninu
Næsta greinÞríeykið í Listasafni Árnesinga