Háspenna-Framlenging í Grindavík

Þór beið lægri hlut þegar liðið mætti Grindavík í framlengdum spennutrylli á útivelli í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld.

Þórsarar byrjuðu betur í leiknum en um miðjan 1. leikhluta fóru Grindvíkingar í gang og leiddu 22-17 eftir tíu mínútna leik. Annar fjórðungur var í járnum, lítið um varnir og mikið skorað. Grindavík hélt forskotinu inn í hálfleikinn, 49-44.

Baráttan hélt áfram í upphafi seinni hálfleiks og það var lítið sem skildi liðin að. Magnús Breki Þórðason lokaði hins vegar 3. leikhluta með tveimur þriggja stiga körfum og kom Þórsurum í 73-76.

Þór náði sjö stiga forskoti í upphafi 4. leikhluta en þá svöruðu Grindvíkingar og komust yfir aftur. Lokasekúndurnar voru æsispennandi en Jesse Pellot-Rosa jafnaði fyrir Þór, 95-95, með þriggja stiga skoti þegar sextán sekúndur voru eftir. Grindvíkingar áttu síðustu sóknina en lokaskot þeirra geigaði.

Í framlengingunni byrjuðu Grindvíkingar betur og skoruðu sex fyrstu stigin. Þórsarar þjörmuðu þó að þeim undir lokin og áttu síðasta skot leiksins í stöðunni 106-105 en Pellot-Rosa hitti ekki.

Emil Karel Einarsson var bestur í liði Þórs, skoraði 28 stig og var öflugur í vörn og sókn.

Tölfræði Þórs: Jesse Pellot-Rosa 32/9 fráköst, Emil Karel Einarsson 28/7 fráköst/6 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 19, Magnús Breki Þórðason 9, Adam Eiður Ásgeirsson 6, Davíð Arnar Ágústsson 6, Þorsteinn Már Ragnarsson 5/5 stoðsendingar.

Fyrri greinHamar fékk skell í Vesturbænum
Næsta greinSætur sigur á Skaganum