Harpa og Heiðar sigruðu á vormótinu

Vormót Lyftingafélagsins Hengils var haldið á uppstigningardag. Harpa Almarsdóttir sigraði í kvennaflokki og Heiðar Heiðarsson í karlaflokki.

Um var að ræða innanfélagsmót þar sem keppt var í snörun og jafnhöttun. Keppt var eftir Sinclair kerfi en þar er líkamsþyngd keppenda tekin inn í reikniformúlu ásamt þeirri þyngd sem lyft er og því er ekki keppt í þyngdarflokkum heldur einungis í karla og kvennaflokki.

Mikil vinna hefur farið fram hjá iðkendum félagsins en er þetta annað innanhúsmót Lyftingafélagsins Hengils. Um er ræða mót fyrir iðkendur til að fá keppnisreynslu svo þau geti spreytt sig á mótum LSÍ í framtíðinni en eitt þeirra verður haldið í Hveragerði í október næstkomandi.

Tólf þáttakendur voru skráðir til keppni, sjö karlar og fimm konur. Meðal keppenda var Matthías Abel Einarsson en hann var jafnframt yngsti keppandinn 15 ára að aldri. Hefði þetta verið mót á vegum LSÍ væri Matthías nú Íslandsmethafi í jafnhöttun.

Heiðar Ingi Heiðarsson sigraði í karlaflokki með 265,8 stig. Annar varð Gunnar Ingi Þorsteinsson með 258,9 stig og þriðji Alexander Kristmannson með 246,5 stig.

Í kvennaflokki sigraði Harpa Almarsdóttir með 176,1 stig. Önnur varð Heiðrún Stella Þorvaldsdóttir með 166,6 stig og í því þriðja Birna Almarsdóttir með 162,9 stig.

Lyftingafélagið Hengill var stofnað síðastliðið sumar og hefur starfsemi þess stækkað mikið á árinu, gerir stjórn félagssins ráð fyrir áframhaldandi grósku í starfi þess.

Upplýsingar um félagið má finna á Facebook.

Fyrri greinDagbók lögreglu: Stolið úr dósagámi í Grímsnesinu
Næsta greinSkuldirnar lækka í Bláskógabyggð