Harpa nýr formaður Garps

Harpa Rún Kristjánsdóttir í Hólum á Rangárvöllum var kosin nýr formaður Íþróttafélagsins Garps á aðalfundi í síðustu viku.

Formaður síðustu 6 ára, Jóhanna Hlöðversdóttir, lét af störfum en áfram sitja í stjórn Guðrún Arnbjörg Óttarsdóttir gjaldkeri, Herdís Styrkársdóttir ritari, meðstjórnendurnir Karen Engilbertsdóttir og Óðinn Burkni Helgason og varamenn eru Friðgerður Guðnadóttir og Kristinn Guðnason. Ólafur Logi Guðmundsson var kosinn fulltrúi nemenda og Margrét Heiða Stefánsdóttir og Margrét Rún Guðjónsdóttir varamenn.

Á fundinum komst ýmislegt til tals, meðal annars hugsanlegar lagabreytingar í félaginu, þjálfaramál, skemmtilegar leiðir til fjáröflunar og fleira. Rætt var um gott samstarf þjálfara og stjórnar við tengilið nemenda sem setið hefur í stjórn Garps undanfarið. Skýrsla stjórnar var flutt og ársreikningur borinn upp til samþykktar. Fram kom að mikil sókn er í frjálsum íþróttum. Einnig var á dagskrá fyrirhugað leiklistarnámskeið á vegum félagsins sem og svokallaður Íþróttadagur yngri barna á Laugalandi.

Fulltrúar úr 7. og 8. bekk Laugalandsskóla komu fram með mjög góðar tillögur að nýjum keppnisbúningi í frjálsum, sem verið er að skoða.

Þrettán manns voru mættir á fundinn og fundarstjóri var Engilbert Olgeirsson.

Fyrri greinBjarnastaðabeljurnar í hundraðasta sinn
Næsta greinSlökkvistöðin seld