Haraldur keppir í Svíþjóð

Spretthlauparinn Haraldur Einarsson, sem æfir með Umf. Selfoss, leggur land undir fót og keppir í Svíþjóð um helgina.

Haraldur keppir á Pallas Spelen sem er stórt innahús mót í Malmö en þar keppa rúmlega 1100 keppendur. Flestir þeirra koma frá Svíþjóð og Danmörku en auk Haraldar eru þrír Íslendingar sem keppa á mótinu. Haraldur keppir í 400m hlaupi á laugardag og 200m hlaupi á sunnudag.

Af þeim sem eru með skráðan tíma í 400m á Pallas Spelen, á Haraldur 5. besta tímann, 50,47 sek. Þeim tíma náði hann síðustu helgi þegar hann sigraði á Stórmóti ÍR sem er góð bæting frá fyrri tíma. Hann bætti HSK-met innanhúss en einnig er þetta besti árangur á Íslandi innanhúss veturinn 2010-2011.

Haraldur er á mikilli uppleið og má búast við enn betri árangri og mörg mót eftir eins og Meistaramót Íslands og Bikarkeppni Frjálsíþróttasambandsins.

Fyrri greinSigurður og Loki sigruðu
Næsta greinFrammistaðan til fyrirmyndar