Haraldur hljóp undir 50 sek

Nokkrir meðlimir úr meistarahópi Umf. Selfoss í frjálsum kepptu á Gautaborgarleikunum í Svíþjóð um liðna helgi og gekk þeim vel.

Þeir Haraldur Einarsson, Dagur Fannar Magnússon og Guðmundur Kristinn Jónsson hafa verið í Svíþjóð undanfarið í keppnisferð og voru Gautaborgaleikarnir lokapunktur hennar. Systurnar Þórhildur Helga og Sólveig Helga Guðjónsdætur bættust svo í hópinn fyrir mótið.

Haraldur stóð sig mjög vel. Eftir að hafa gefið tóninn í 100 m hlaupinu og hlaupið á sínu ársbesta, 11,43sek. í mótvindi þá átti hann frábært hlaup í sinn aðalgrein, 400 m hlaupinu þar sem hann kom í mark á 49,62 sek. og bætti sig um rúmlega hálfa sek. Þetta er þriðji besti tími innan HSK frá upphafi.

Sólveig Helga var í miklu stuði á mótinu. Hún keppti í þremur greinum í flokki 15 ára stúlkna og bætti sig í tveimur þeirra. Hún hljóp 300 m hlaup á 42,54 sek sem er bæting um rúmlega eina og hálfa sek og HSK og Selfoss met í flokkum 15 – 22 ára og Selfossmet í kvennaflokki. Sólveig varð þrettánda af 73 keppendum í þessu hlaupi. Hún bætti sig svo í 800 m hlaupi um rúmar tvær sek er hún hljóp á 2:29,13 mín. Sólveig keppti einnig í 100 m hlaupi og kom í mark á ágætum tíma, 13,42 sek.

Dagur Fannar keppti í sleggjukasti í 18–19 ára flokki og varð í 4. sæti. Hann kastaði sleggjunni 46,87m sem er aðeins styttra en um síðustu helgi á Eyrarstundleikunum en bakmeiðsli eru að gera Degi erfitt fyrir.

Guðmundur Kristinn keppti í spjótkasti í flokki 16-17 ára. Það gekk ekki alveg eins vel núna og um síðustu helgi en kastaði engu að síður ágætlega 46,57m.

Þórhildur Helga keppti í þremur hlaupagreinum í flokki 18-19 ára og var að gera fína hluti. Hún hljóp 100 m hlaup á 13,29 sek í töluverðum mótvindi, 200m hlaup á 26,91 sek og svo 400m hlaup á 64,04 sek.

Það er ljóst að mót af þessari stærðargráðu, ein og í Svíþjóð, er kjörinn vettvangur fyrir okkar fólk til að keppa á. Að sjálfsögðu til að reyna að bæta sig við góðar aðstæður en ekki síður til að öðlast keppnisreynslu erlendis.