Hannar nýja stúku á Ísafirði

Tómas Ellert Tómasson, bygging­ar­verkfræðingur á Selfossi, var fenginn til að hanna nýja stúku við Torfnesvöll á Ísafirði en ráðist verður í byggingu hennar í haust.

Ísfirðingar settu sig í samband við Tómas Ellert í kjölfarið á bygg­ingu stúkunnar við knattspyrnu­völlinn á Selfossi, sem hann hann­aði á sínum tíma. „Það tókst ágæt­lega til við þá hönnun og fékkst fremur hagkvæm lausn við hana, svo þeir óskuðu eftir því við mig að ég hannaði eina slíka við völl­inn hjá sér,“ sagði Tómas Ellert í samtali við Sunnlenska.

Stúkan á Ísafirði verður jafnlöng, um 55 metrar en ekki jafn breið stúkunni á Selfossi. „Þetta er nokkuð einfaldari hönnun, því skotíþrótta­félagið verður með aðstöðu þar inni og því engir búningsklefar í henni eins og ráðgert er á Selfossi,“ segir hann. Byggð verður stúka og þak yfir hana í einum áfanga að sögn Tómasar Ellerts.

Aðspurður um hvenær ráðgert sé að byggja þakið yfir stúkuna á Selfossi segir Tómas stefnt að útboði á þeirri fram­kvæmd með haustinu, en vonir eru bundnar við að þak verði komið á stúkuna fyrir setningu Unglinga­landsmótsins sem fram fer á Selfossi næsta sumar.