Hanna og Guðmundur stóðu sig vel

Selfyssingarnir Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Guðmundur Árni Ólafsson áttu bæði fína leiki þegar landslið Íslands í handbolta mættu Svartfellingum í dag.

Hrafnhildur Hanna var markahæst hjá kvennaliðinu sem gerði 19-19 jafntefli í sínum leik. Hanna skoraði fimm mörk í leiknum, þar af þrjú af vítalínunni. Leikurinn var seinni leikur Íslands og Svartfjallalands í umspili um sæti á Heimsmeistaramótinu sem fram fer í Danmörku síðar á árinu.

Jafnteflið dugði Íslandi ekki því Svartfjallaland vann fyrri leikinn með níu marka mun, 28-19, en Hanna skoraði fjögur mörk í þeim leik.

Karlalið Íslands vann stórsigur á Svartfjallalandi í dag, 34-22, þar sem Guðmundur Árni skoraði 4 mörk og átti fínan leik í hægra horninu. Með sigrinum gulltryggði íslenska liðið sér sæti á Evrópumeistaramótinu í handbolta í janúar næstkomandi.

Fyrri greinHörkukeppni á héraðsmóti
Næsta greinAðalbjörg hætt í sveitarstjórn vegna ágreinings