Hanna með 13 mörk í öruggum sigri

Selfoss vann öruggan sigur á ÍR á heimavelli í Olís-deild kvenna í handbolta í dag. Lokatölur í Vallaskóla urðu 35-28.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Selfyssingum gekk illa að hrista ÍR-inga af sér. Selfoss náði þriggja marka forskoti undir lok fyrri hálfleiks, 14-11, en staðan í leikhléi var 15-13.

Baráttan hélt áfram í upphafi síðari hálfleiks en um miðjan hálfleikinn kom góður kafli hjá Selfyssingum þar sem þær náðu að auka muninn upp í fimm mörk, 26-21. Eftir það var sigurinn ekki í hættu og að lokum skildu sjö mörk liðin að.

Eftir leiki dagsins er Selfoss áfram í 7. sæti, nú með 24 stig.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði 13 mörk fyrir Selfoss, Adina Ghidoarca skoraði 9, Perla Ruth Albertsdóttir 4, Elena Birgisdóttir 3, Thelma Sif Kristjánsdóttir og Steinunn Hansdóttir 2 og þær Margrét Katrín Jónsdóttir og Carmen Palamariu skoruðu sitt markið hvor.

Fyrri greinÓheimilt að synja grönnum sínum um framkvæmdaleyfi
Næsta greinBlandað lið Selfoss bikarmeistari í hópfimleikum