Handknattleiksbókin í áskrift

Í desember næstkomandi kemur út ritverkið Handknattleiksbókin I-II eftir Steinar J. Lúðvíksson.

Í þessu mikla verki er rakin saga handknattleiksíþróttarinnar á Íslandi allt frá því að hún nam hér land upp úr 1920 og fram til ársins 2011.

Fjallað er um alla þætti “þjóðaríþróttarinnar” enda af nógu að taka í litríkri sögu hennar. Fyrirferðarmestu kaflarnir fjalla um Íslandsmótið í handknattleik og um landsleiki sem Íslendingar hafa leikið frá fyrstu tíð.

Í kaflanum um Íslandsmótið er sagt frá mótum karla og kvenna, inni og úti, frá því það var fyrst haldið í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar við Lindargötu árið 1940. Greint er frá gangi mála í mótinu frá ári til árs og sagt frá eftirminnilegum leikjum og leikmönnum. Einkum er fjallað um efstu deild en einnig sagt frá keppni í öðrum deildum.

Í kaflanum um landsleikina er sagan raki frá því að Íslendingar léku fyrst landsleik árið 1950. Fjallað er um leikina frá ári til árs, greint frá öllum leikjum karla og kvenna svo og ungmennaliða þegar þeim tókst best til. Staldrað er sérstaklega við mót, svo sem EM, HM og ólympíuleika og sagt frá eftirminnilegum atburðum einstakra leikja.

Í öðrum þáttum ritsins er það rakið er handknattleikurinn var að nema land á Íslandi og sagt frá starfi brautryðjendanna. Fjallað er um aðstöðuna sem ekki var beysin í byrjun og hvernig hún hefur breyst með árunum. Einnig er sagt er frá hinu félagslega starfi handknattleikshreyfingarinnar, hlutverki hennar og verkefnum.

Langur kafli er um þátttöku íslenskra félagsliða í Evrópubikarkeppninni, “útrás” íslenskra handknattleiksmanna í atvinnumennsku erlendis; Fjallað er um dómara, dómgæslu og þær breytingar sem gerðar hafa verið á reglum íþróttarinnar, þáttur er um hlut handknattleiksmanna í kjöri “Íþróttamanns ársins”. Sérþáttur er um heimsmeistarakeppnina á Íslandi árið 1995 og birtar eru ítarlegar tölfræðilegar upplýsingar.

Hægt er að gerast áskrifandi að þessu mikla verki og munu nöfn áskrifenda birtast aftast í því undir orðunum: Sendum handknattleiksfólki okkar baráttukveðjur í komandi mótum. Þar bera hæst heimsmeistarakeppni kvenna og Evrópukeppni karla og ekki veitir af stuðningi fyrir þau átök. Fullt verð ritsins, sem verður í tveimur bindum og líklega alls um 800 blaðsíður, er kr. 19.900-. Áskriftarverðið er hins vegar kr. 16.900- og er sendingargjaldið þar innifalið.

Þeir sem vilja gerast áskrifendur (einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félög) eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við Ólaf Hrólfsson í s. 861-9407 eða netfangið olibok@simnet.is fyrir septemberlok.

Útgefandi þessa mikla verks verður Bókaútgáfan Hólar í samvinnu við Formannafélag Handknattleikssambands Íslands.

Fyrri greinKanna möguleika á uppbyggingu hjúkrunarheimilis
Næsta greinVilja skoða minni Ölfusárvirkjun