Handbolti: Selfoss tapaði í Eyjum

Selfyssingar töpuðu fyrir ÍBV þegar liðin mættust í 1. deild karla í handbolta í dag úti í Eyjum. Lokatölur voru 32-28. Um leið lagði Afturelding ÍR og eru Mosfellingar því komnir í 1. sæti deildarinnar, stigi á undan Selfyssingum þegar tvær umferðir eru eftir.

Eyjamenn voru yfir allan tímann og verður sigur þeirra að teljast nokkuð sanngjarn. Þó var smá spenna undir lok leiksins þegar Selfyssingum tókst að minnka muninn úr 30-25 í 30-28 en Eyjamenn skoruðu síðustu tvö mörk leiksins og fögnuðu vel og innilega í leikslok. Þetta er sjötti sigur ÍBV í röð en síðast töpuðu Eyjamenn einmitt gegn Selfyssingum, á Selfossi í miklum baráttuleik.

„Við verðum bara að kyngja því að þeir voru betri en við í dag. Þeir spiluðu mjög agaðan, skynsaman og vel útfærðan sóknarleik og frábæra vörn á meðan að sóknarleikur okkar var alveg hið gagnstæða. Við náðum aldrei að stilla upp í þær leikaðferðir sem lagt var upp með fyrir leik,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, í leikslok.

Fyrri greinUmfang jarðræktar mest í Rangárvallasýslu
Næsta greinKnattspyrna: KFG lagði KFR