Handboltaveturinn búinn

Stjörnumenn sópuðu Selfyssingum út úr umspilinu um sæti í efstu deild handboltans þegar liðin mættust í leik tvö á Selfossi í dag. Lokatölur voru 27-34 og vann Stjarnan einvígið 2-0.

Selfyssingar byrjuðu illa í leiknum, vörnin var galopin og markvarslan eftir því í lágmarki. Stjarnan komst í 2-5 á fyrstu fjórum mínútum leiksins, Selfoss minnkaði muninn í 7-8, en eftir það sáu vínrauðir vart til sólar og Stjarnan náði mest sex marka forskoti í fyrri hálfleik, 9-15. Staðan var 13-18 í leikhléinu.

Síðari hálfleikurinn var í meira jafnvægi en sóknarlega voru Selfyssingar hikandi og komust lítið áleiðis gegn Stjörnumönnum sem voru fastir fyrir í vörninni. Það var fátt sem benti til þess að Selfyssingar myndu jafna leikinn en munurinn varð minnstur þrjú mörk í seinni hálfleik, 23-26, þegar tíu mínútur voru eftir. Selfyssingar náðu ekki að minnka muninn frekar og leikurinn fjaraði hratt út síðustu sex mínúturnar.

Atli Hjörvar Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Hörður Másson skoraði 5, Andri Már Sveinsson 5/5, Ómar Ingi Magnússon 4, Einar Sverrisson 3, Sverrir Pálsson 2 og þeir Atli Kristinsson og Andri Hrafn Hallsson skoruðu sitt markið hvor.

Sverrir Andrésson varði 9/1 skot í marki Selfoss og var með 26% markvörslu og Bogi Pétur Thorarensen varði 1 skot og var með 14% markvörslu.

Fyrri greinSelfyssingar tvöfaldir Íslandsmeistarar
Næsta greinGrýlupottahlaup 1/2014 – Úrslit