Hamri dæmdur sigur gegn Hrunamönnum

Hamarsmenn fagna. Mynd úr safni. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Hamri og Vestra hefur verið dæmdur sigur í leikjum gegn Hrunamönnum í tveimur síðustu umferðum 1. deildar karla í körfubolta.

Eins og fram hefur komið í fréttum, þá hefur verið hægt á öllu lífi á Flúðum eftir að upp kom kórónuveirusmit kom upp í hreppnum. Sveitarstjórn Hrunamannahrepps ákvað meðal annars að loka íþróttahúsinu, auk þess sem bæði leikmenn og aðrir tengdir félaginu eru í sóttkví. Hrunamenn sjá sér því ekki fært að leika þá tvo leiki sem eftir eru hjá þeim í 1. deild karla á næstu dögum, eða innan þess ramma sem deildarkeppnin býður.

Þar sem dregur að lokum deildarkeppni 1. deildar karla, en lokaumferð deildarinnar fer fram mánudaginn 3. maí, þá sér mótanefnd KKÍ sér ekki fært að setja leiki Hrunamanna aftur fyrir lokaumferð deildarkeppni 1. deildar, þar sem stutt er í úrslitakeppni deildarinnar. Í tilkynningu frá körfuknattleikssambandinu segir að mótanefnd hafi tekið þá erfiðu ákvörðun, eftir samtal við Hrunamenn og að vel ígrunduðu máli, að þessir leikir Hrunamanna munu ekki fara fram. Hamar og Vestri hljóta því sigur í þessum lokaleikjum.