„Hamingjusamur, mjög glaður, sáttur, stoltur“

Selfyssingar eru komnir í 16-liða úrslit Borgunarbikars karla í knattspyrnu eftir magnaðan 1-2 sigur á KR í framlengdum leik í Frostaskjólinu í kvöld.

„Hamingjusamur, mjög glaður, sáttur, stoltur,“ voru lýsingarorðin sem Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, fann í kolli sínum þegar sunnlenska.is ræddi við hann í leikslok.

„Mér fannst við halda ró og við fundum hvað við erum fitt. Ég hafði engar áhyggjur af standinu á liðinu þegar við vorum að fara í framlenginguna og mér fannst við sýna það. Við vorum bara með þetta. Við töluðum um það fyrir framlenginguna og í hálfleik framlengingarinnar að við ætluðum bara að vinna þetta,“ sagði Gunnar og bætti við að leikskipulagið hafi gengið fullkomlega upp.

„Ég er ótrúlega stoltur af strákunum. Það var sett upp einfalt en öruggt plan og við fórum eftir því og þess vegna unnum við í dag. Við ætluðum auðvitað að njóta dagsins, hafa gaman og leggja okkur fram. Spila með hjartanu. Við vissum að það væri ólíklegt að við myndum vinna, en það væri séns.“

Selfyssingar lentu undir í leiknum en létu það ekki á sig fá og liðið lagði sig gríðarlega mikið fram á lokakaflanum.

„Við ætluðum að mæta kjarkaðir inn í leikinn og pressa á þá, en við vorum aðeins að falla til baka. Svo þegar þeir skora þá verðum við bara að fara „all in“ í að pressa. Það var bara öskrað allan tímann, Stefán Ragnar, Vignir og við á bekknum, öskruðum pressa-pressa upp á alla bolta. Mér fannst það vera að ganga upp. Það var frábært að ná að klára þetta,“ sagði Gunnar að lokum.

Þolinmæði þrautir vinnur allar
KR-ingar voru sterkari í fyrri hálfleik og áttu bæði skot í stöng og slá en Selfyssingar voru þolinmóðir og vinnusamir og héldu skipulaginu. Staðan var 0-0 í hálfleik en þeir vínrauðu fengu blauta tusku í andlitið þegar fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Denis Fazlagic kom KR þá yfir og í kjölfarið virtust KR-ingar ætla að sigla sigrinum heim.

Selfyssingar voru þó fljótir að hrista úr sér hrollinn og tíu mínútum síðar jafnaði J.C. Mack metin með góðu skoti úr teignum eftir frábæra fyrirgjöf frá hægri. Staðan var því 1-1 eftir 90 mínútur svo gripið var til framlengingar.

Bæði lið fengu færi í framlengingunni en sigurmarkið leit dagsins ljós þegar fjórar mínútur voru eftir af framlengingunni. Pachu fékk þá góðan bolta upp vinstra megin sem hann flengdi fyrir markið. Þar var Arnar Logi Sveinsson staddur á fjærstöng, fór framhjá einum KR-ingi og afgreiddi knöttinn svo af þvílíkri yfirvegun framhjá Stefáni Loga Magnússyni, markverði KR.

Leikurinn fjaraði út eftir þetta og allt ætlaði um koll að keyra í herbúðum Selfoss, innan vallar sem utan þegar flautað var til leiksloka.

Nafn Selfoss verður í skálinni þegar dregið verður í 16-liða úrslitin í hádeginu á föstudaginn ásamt Fylki, Víkingi R., Val, ÍA, Þrótti R., ÍBV, Leikni R, Fram, Grindavík, Vestra, Gróttu, Víði, Kríu eða Breiðablik, FH eða KF og Stjörnunni eða Víkingi Ó.

Fyrri greinGerir brúðarvendi fyrir erlenda ferðamenn
Næsta greinRándýrt sigurmark Gunnars Bjarna