Hamarsmenn styrkja sig

Topplið Hamars í 2. deild karla í knattspyrnu hefur fengið tvo leikmenn í sínar raðir frá því að félagaskiptaglugginn opnaði þann 15. júlí sl.

Hamar fékk Sturlaug Haraldsson frá 1. deildarliði Gróttu. Sturlaugur er fæddur 1991, leikur sem framherji og getur einnig spilað á hægri kantinum. Hann hefur leikið einn mótsleik með Gróttu í sumar.

Þá hefur Hamar fengið varnarmanninn Pétur Ásbjörn Sæmundsson frá 3. deildarliði Markaregns. Pétur hefur leikið með Haukum undanfarin ár og á að baki 26 deildarleiki fyrir Hafnarfjarðarliðið í Pepsi-deildinni og 1. deildinni.

Báðir eru þeir komnir með leikheimild með Hamri sem leikur næst á heimavelli gegn Árborg á fimmtudagskvöld.