Hamarsmenn stórhuga fyrir komandi tímabil

Hamarsmenn fagna stigi. Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þrefaldir meistarar Hamars í blaki karla eru stórhuga fyrir komandi keppnistímabil en félagið hefur samið við alla lykilmenn liðsins frá síðasta tímabili.

Hamar hefur samið við þá Hafstein og Kristján Valdimarssyni, sem og Ragnar Inga Axelsson. Einnig hafa erlendu leikmennirnir, þeir Damian Sapor, Jakub Madej og Wiktor Mielczarek samið aftur við félagið fyrir komandi leiktíð. Radoslaw Rybak verður áfram spilandi þjálfari en þó er gert ráð fyrir að hlutverk hans innan vallar muni minnka.

„Þó árangur síðasta tímabils hafi verið fram úr væntingum, þá eru Hamarsmenn hvergi af baki dottnir og lítill hugur í mönnum að sleppa höndum af titlunum þremur. Ekki er loku fyrir það skotið að frekari frétta sé að vænta af leikmannahópnum,“ segir í tilkynningu frá Hamri.

Fyrri greinBesti dagur ársins
Næsta greinAndlaust í kveðjuleik Alfreðs