Hamarsmenn sterkir á heimavelli

Everage Richardson var með þrefalda tvennu í leiknum; 32 stig, 14 fráköst og 11 stoðsendingar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar leiðir 1-0 í einvíginu gegn Hetti eftir bráðfjörugan leik í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta í Hveragerði í kvöld.

Leikurinn var jafn framan af en í 2. leikhluta gerðu Fjölnismenn áhlaup og náðu að skora 37 stig í leikhlutanum. Staðan var 45-57 í hálfleik.

Hamarsmenn létu þetta ekki á sig fá, byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og voru sterkari það sem eftir lifði leiks. Hamar jafnaði 83-83 þegar rúm mínúta var liðin af 4. leikhluta og Hvergerðingar spiluðu hörkuvörn í kjölfarið og tryggðu sér góðan sigur, 101-95.

Everage Richardson var öflugur í kvöld með 36 stig og 8 stoðsendingar. Oddur Ólafsson átti sömuleiðis góðan leik, skoraði 13 stig og sendi 10 stoðsendingar auk þess að taka 6 fráköst.

Liðin mætast næst á Egilsstöðum á sunnudag og þriðji leikurinn verður í Hveragerði á miðvikudag. Það lið sem vinnur tvo leiki mætir Fjölni eða Vestra í einvígi um sæti í úrvalsdeildinni.

Tölfræði Hamars: Everage Lee Richardson 36/4 fráköst/8 stoðsendingar, Julian Rajic 23/4 fráköst, Oddur Ólafsson 13/6 fráköst/10 stoðsendingar, Florijan Jovanov 10/4 fráköst/5 stoðsendingar, Geir Elías Úlfur Helgason 8/6 fráköst, Dovydas Strasunskas 8/4 fráköst, Marko Milekic 3/8 fráköst.

Fyrri greinMótmæla harðlega áformum um skert framlög til jöfnunarsjóðs
Næsta greinRafmagnslaust í Mýrdalnum eftir að staurar brotnuðu