Hamarsmenn sterkari í lokin

Hamar náði að knýja fram sigur á lokasprettinum þegar liðið heimsótti KFÍ í 1. deild karla í körfubolta á Ísafirði í kvöld.

Hamar byrjaði vel í leiknum og leiddi 10-21 að loknum 1. leikhluta. Heimamenn komu til baka í 2. leikhluta og náðu að minnka muninn í 32-35 fyrir leikhlé.

Seinni hálfleikur var jafn og spennandi en þegar 4. leikhluti hófst var staðan jöfn, 52-52. Hvergerðingar voru skrefinu á undan allan 4. leikhluta en þó að munurinn hafi verið lítill náðu Hamarsmenn að halda KFÍ frá sér og skildu fjögur stig liðin að í lokin, 65-59.

Julian Nelson var stigahæstur hjá Hamri með 31 stig og 12 fráköst. Bjarni Rúnar Lárusson skoraði 15 stig, Snorri Þorvaldsson og Kristinn Ólafsson 6, Örn Sigurðarson 5, Þorsteinn Gunnlaugsson 4 og Stefán Halldórsson 2.

Hamar er í 3. sæti deildarinnar með 18 stig, eins og FSu en Selfossliðið á leik til góða á Hvergerðinga.

Fyrri grein„Sendi ekki nokkurn mann inn í brennandi hús“
Næsta greinÁrborg úr leik í Útsvarinu