Hamarsmenn stefna ótrauðir áfram

Nýjasti leikmaður Hamars, Wiktor Mielczarek, við komuna til landsins ásamt Barböru Meyer, formanni blakdeildarinnar, og Radoslav Rybek, þjálfara. Ljósmynd/Aðsend

Keppnisíþróttir eru farnar aftur af stað á Íslandi og á sunnudaginn kemur kl. 14 hefja Hamarsmenn aftur leik á heimavelli í Mizunodeild karla í blaki.

Hamar fær þá Fylki í heimsókn í þriðja mótsleik vetrarins. Tveimur umferðum var lokið þegar sóttvarnarreglur settu stopp á deildarkeppnina fyrir 100 dögum síðan en Hvergerðingar höfðu þá unnið báða leiki sína 3-0 og voru því með fullt hús stiga ásamt HK.

Í leiknum á sunnudaginn mun nýjasti leikmaður Hamars, Wiktor Mielczarek, þreyta fumraun sýna með liðinu en hann gekk til liðs við félagið rétt áður en keppni á Íslandsmótinu var stöðvuð.

Wiktor, sem er 23 ára, er þrátt fyrir ungan aldur með mikla keppnisreynslu í blaki. Hann hóf ferilinn í inniblaki en setti nýlega áherslu á strandblak í heimalandinu þar sem hann var á meðal þeirra bestu og m.a. valinn sóknarmaður ársins á síðasta tímabili.

Hamarsmenn stefna hátt á sínu fyrsta tímabili í úrvalsdeildinni og verður áhugavert að sjá hvernig þeir koma til leiks á sunnudag. Að sögn Kristínar Hálfdánardóttur, fjölmiðlafulltrúa blakdeildarinnar, hafa Hamarsmenn náð að æfa nokkuð vel í hléinu en hætt er við að hópurinn verði aðeins ryðgaður núna þegar keppni hefst að nýju, ekki síst vegna þess að pólsku leikmennirnir í liðinu fóru heim yfir hátíðarnar og losna úr sóttkví rétt fyrir leik. Liðið hefur æft eins og sóttvarnarheimildir hafi boðið upp á en fjallgöngur og fleira hafi einnig verið nýtt til að halda sér í formi.

Fyrri greinHátíðarfundur í fjarfundi í dag
Næsta greinHárfínn munur í stóru útboði