Hamarsmenn komnir í úrslitarimmuna

Jose Medina var í miklu stuði hjá Hamri, skoraði 32 stig og sendi 10 stoðsendingar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann Fjölni í fjórða leik liðanna í undanúrslitum 1. deildar karla í körfubolta í kvöld og einvígið þar með 3-1.

Lokatölur í Dalhúsum urðu 79-82 eftir spennandi og sveiflukenndan leik. Hamar byrjaði vel, spilaði fína vörn og leiddi í leikhléi, 36-45.

Spenna hljóp í leikinn í 3. leikhluta þar sem Fjölnismenn skelltu í lás og komust yfir, 49-47, eftir tæpar fimm mínútur. Hamarsmenn tóku þá aftur við sér og náðu sjö stiga forskoti en staðan var 57-60 þegar síðasti fjórðungurinn hófst.

Þar skiptust liðin á um að hafa forystuna og staðan var 74-75 þegar lokamínútan hófst. Þar reyndust Hvergerðingar sterkari á svellinu og þeir Alfonso Birgir Gomez og Brendan Howard voru öruggir í á vítalínunni þegar liðið var komið með skotrétt. Hamar hafði að lokum þriggja stiga sigur, 79-82.

Jose Medina var í miklu stuði hjá Hamri, skoraði 32 stig og sendi 10 stoðsendingar.

Hamar mætir funheitu liði Skallagríms úr Borgarnesi í úrslitarimmunni um sæti í úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Skallagrímur sópaði Sindra út úr fjögurra liða úrslitum. Einvígi Hamars og Skallagríms átti að hefjast í Hveragerði sunnudaginn 16. apríl, en fyrsta leikdegi verður að öllum líkindum flýtt og ætti það að skýrast fljótlega.

Fjölnir-Hamar 79-82 (12-24, 24-21, 21-15, 22-22)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 32/4 fráköst/10 stoðsendingar, Brendan Howard 14/5 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 11/6 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 9, Elías Bjarki Pálsson 7, Daði Berg Grétarsson 7/6 fráköst, Alfonso Birgir Gomez 2/7 fráköst.

Fyrri greinKristrún og Lena til Selfoss
Næsta greinNanna ráðin skrifstofustjóri UTU