Hamarsmenn komnir í sumarfrí

Hamar tapaði í kvöld 74-80 þegar liðið tók á móti Val í úrslitaeinvígi 1. deildarinnar í körfubolta. Valur fer því upp í úrvalsdeild en Hamar situr áfram í 1. deildinni.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 18-16. Valur náði góðri rispu í 2. leikhluta og leiddi í hálfleik 31-43.

Seinni hálfleikur var spennuþrunginn en þegar síðasti fjórðungurinn hófst var staðan 52-54 og allt undir á lokamínútunum. Þar reyndust Valsmenn sterkari og höfðu að lokum sex stiga sigur.

Oddur Ólafsson var stigahæstur hjá Hamri með 21 stig, Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 13, Örn Sigurðarson 11 og Jerry Lewis Hollis 10 en auk þess tók hann 17 fráköst og varði 4 skot.

Ragnar Á. Nathanaelsson skoraði 8 stig og varði 5 skot, Bjartmar Halldórsson skoraði 6, Halldór Gunnar Jónsson 3 og Lárus Jónsson 2.

Fyrri greinFyrsti sigur Stokkseyringa
Næsta greinÞetta verður gott sumar