Hamarsmenn komnir í bílstjórasætið

Jose Medina skoraði 24 stig í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann góðan sigur á Fjölni í þriðja leik liðanna í undanúrslitum 1. deildar karla í körfubolta, í Frystikistunni í Hveragerði í kvöld.

Leikurinn var jafn framan af en í 2. leikhluta tóku Hamarsmenn af skarið, skelltu í lás í vörninni og leiddu 50-34 í hálfleik. Hvergerðingar gerðu svo út um leikinn í 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða var staðan orðin 82-53. Fjölnismenn söxuðu á forskotið undir lokin en þegar upp var staðið var sigur Hamars öruggur, 99-82.

Jose Medina var öflugur í liði Hamars í dag með 24 stig og 7 stoðsendingar en Ragnar Nathanaelsson var framlagshæstur með 14 stig og 16 fráköst.

Hamarsmenn eru þar með komnir í bílstjórasætið en staðan í einvíginu er 2-1 og liðin mætast næst í Grafarvoginum klukkan 18 á páskadag. Liðið sem vinnur þrjá leiki mætir Skallagrím í úrslitarimmunni en Borgnesingar sópuðu Sindra út úr úrslitakeppninn í dag.

Hamar-Fjölnir 99-82 (21-23, 29-11, 27-19, 22-29)
Tölfræði Hamars: Jose Medina 24/7 stoðsendingar, Brendan Howard 23/7 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 14/16 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 10/4 fráköst/5 stoðsendingar, Elías Bjarki Pálsson 9, Alfonso Birgir Gomez 9/5 fráköst, Daði Berg Grétarsson 6, Egill Þór Friðriksson 2, Daníel Sigmar Kristjánsson 2.

Fyrri greinGul viðvörun: Stormur á föstudaginn langa
Næsta greinSigrún sýnir á Sólheimum