Hamarsmenn komnir á toppinn

Hamarsmenn fagna sigrinum á Vestra á Ísafirði. Ljósmynd/Aðsend

Hamarsmenn halda sigurgöngu sinni áfram í úrvalsdeild karla í blaki. Hamar heimsótti Aftureldingu í Mosfellsbæ á miðvikudaginn og sigraði þar 3-0 í nokkuð jöfnum leik. Um helgina heimsótti liðið svo Vestra á Ísafjörð og sigraði í hörkuspennandi leik.

Upphækkun þurfti til að klára fyrstu hrinuna á móti Vestra en henni lauk með 28-30 sigri Hamars. Vestramenn unnu svo aðra hrinu 25-21 en þá var eins og öll orka væri úr heimamönnum og Hamar vann þriðju hrinuna örugglega 25-15. Vestramenn náðu sér þó aðeins á strik í fjórðu hrinu en það dugði ekki til og Hamar vann hrinuna 25-21 og leikinn þar með 3-1.

Með þessum tveimur leikjum hafa Hamarsmenn nú leikið jafn marga leiki og hin liðin í toppbaráttunni og eru því komnir í toppsæti deildarinnar, ósigraðir með 12 stig en KA er í öðru sæti með 8 stig.

Fyrri greinNenad og Baldvin áfram með Ægi
Næsta greinFrumkvöðull í ræktun á seljurót