Hamarsmenn ískaldir í upphafi leiks

Hamarsmenn við Jökulsárlón í dag. Ljósmynd/Hamar

Hamar byrjaði keppni í 1. deild karla í körfubolta í kvöld með góðum útisigri á Sindra á Hornafirði, 88-102.

Hamarsmönnum hefur verið spáð sigri í 1. deildinni í vetur en þeim var þó kippt snarlega niður á jörðina í upphafi leiks þar sem Sindramenn komust í 29-7. Staðan að loknum 1. leikhluta var 30-13. Hvergerðingar sáu að hér duguðu engin vettlingatök, þannig að þeir tóku af sér hanskana og byrjuðu 2. leikhlutann á 18-2 áhlaupi og minnkuðu muninn í 32-31. Hamar komst yfir í kjölfarið og leiddi 39-42 í hálfleik.

Þriðji leikhlutinn var jafn, en í þeim fjórða voru Hamarsmenn sterkari. Sindri var þó aldrei langt undan, þar til á lokamínútunum að Hamar stakk af og sigraði 88-102.

Ragnar Ragnarsson var stigahæstur Hamarsmanna með 20 stig, Pálmi Geir Jónsson skoraði 17, Danero Thomas 16, Björn Ásgeir Ásgeirsson 15, Kinu Rochford 13, Geir Helgason 12, Toni Jelenkovic 7 og Bjarni Rúnar Lárusson 2.

Fyrri greinÞór tapaði heima gegn Stjörnunni
Næsta greinÖrn Árnason stýrir þjóðsögunum í Hveragerði