Hamarsmenn heilt yfir betri

Hamar vann 107-88 sigur á FSu í stórleik 1. deildar karla í körfubolta í kvöld. Liðin mættust í Hveragerði.

Hamar byrjaði betur í leiknum og komst í 7-1 en Selfyssingarnir voru fljótir að skjóta sig inn í leikinn og jöfnuðu 10-10 áður en þeir komust yfir í skamma stund í eina skiptið í leiknum. Hamar leiddi að loknum fyrsta leikhluta, 27-17.

Heimamenn komust í 41-24 snemma í 2. leikhluta en þá tók FSu liðið við sér og sótti nokkuð að Hamri. Þeir skoruðu 9 stig í röð og minnkuðu muninn í 13 stig en Hamar tók stuttan sprett undir lokin til þess að tryggja sér ágætt forskot í hálfleik, 54-38. Bæði lið gerðu mikið af mistökum, sérstaklega í sókninni en Hamarsmenn voru grimmari undir körfunum og tóku t.d. fimmtán sóknarfráköst í fyrri hálfleik.

Fram að þriðja leikhluta hafði Kjartan Kjartansson, þjálfari FSu, verið sá eini sem eitthvað lét að sér kveða í sókninni. Aðrir voru að hitta illa en Bjarni Bjarnason girti sig í brók í seinni hálfleik og munaði um minna fyrir FSu. Þeir náðu að minnka forskotið niður í þrettán stig undir lok 3. leikhluta og héldu leiknum ennþá opnum.

Allt kom þó fyrir ekki því heimamenn voru sterkari í síðasta fjórðungnum og smám saman fjaraði leikur FSu út. Björgvin Jóhannesson setti niður tvo mikilvæga þrista fyrir Hamar í síðasta fjórðungnum og FSu náði ekki að brúa bilið.

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu á báða bóga og mistökin voru mörg. Þannig misstu Hamarsmenn boltann yfir tuttugu sinnum í sókninni en þeir bættu það upp með því að frákasta frábærlega. Hamar var með 65 fráköst í leiknum á móti 28 fráköstum FSu.

Brandon Cotton var stigahæstur Hamarsmanna með 39 stig. Louie Kirkman skoraði 27 og tók 13 fráköst. Ragnar Nathanaelsson og Bjarni Rúnar Lárusson skoruðu báðir sjö stig og Ragnar tók 11 fráköst að auki.

Hjá FSu var Kjartan stigahæstur með 32 stig. Bjarni skoraði 23, Sæmundur Valdimarsson 15 og Orri Jónsson 10.

Fyrri greinÁhersla lögð á að fínkemba jökulinn
Næsta grein„Allir á nálum fyrir leikinn“