Hamarsmenn flugu í undanúrslitin

Lárus Arnar Guðmundsson, leikmaður Ægis, snýr á tvo andstæðinga og geysist að marki Elliða í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar í Hveragerði tryggði sér sæti í undanúrslitum C-deildar Lengjubikars karla í knattspyrnu með 2-0 sigri á Létti á Selfossvelli í kvöld.

Hamar sigraði alla leiki sína í riðlinum og sat liðið því örugglega í toppsætinu með 12 stig. Sam Malson kom Hvergerðingum yfir snemma leiks í kvöld og Bjarki Rúnar Jónínuson innsiglaði sigurinn á 83. mínútu.

Ægismönnum hefur ekki gengið eins vel í Lengjubikarnum en þeir voru með Hamri í riðli. Ægir mætti Elliða á útivelli í kvöld og tapaði 3-2. 

Staðan var 2-0 í hálfleik en Pálmi Þór Ásbergsson brenndi af vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Elliði komst í 3-0 á 68. mínútu en tveimur mínútum síðar minnkaði Ásgrímur Þór Bjarnason muninn og á 75. mínútu bætti Pétur Smári Sigurðsson við marki fyrir Ægi. Lokakaflinn varð því æsispennandi og Ægismenn voru nær því að skora en inn vildi boltinn ekki.

Ægir náði í 1 stig í riðlinum og varð í 4. sæti.

Úrslitakeppni C-deildarinnar hefst með umspili þann 23. apríl en Hamarsmenn sitja hjá þar og fara beint í undanúrslitin sem leikin verða 28. apríl.

Fyrri greinÞór gaf eftir í lokin
Næsta greinKFR í botnsætinu