Hamarsmenn fallnir

Hamar féll í kvöld úr 3. deild karla í knattspyrnu eftir 1-2 tap gegn Einherja á heimavelli. Lokamínúturnar voru vægast sagt dramatískar í þessum fallbaráttuslag.

Gestirnir frá Vopnafirði voru sterkari í fyrri hálfleik en Hvergerðingar áttu þó fyrsta færið þegar Samúel Arnar Kjartansson misnotaði dauðafæri á upphafsmínútunum.

Eftir það stýrðu Einherjamenn leiknum og þeir komust í 0-1 á 20. mínútu eftir mistök í vörn Hamars. Á 34. mínútu sofnuðu heimamenn aftur á verðinum og Einherji skoraði auðveldlega, 0-2, með skoti úr vítateignum.

Hamar sótti í sig veðrið undir lok fyrri hálfleiks og Samúel Arnar og Tómas Hassing fengu báðir prýðisfæri strax í kjölfar seinna marks Einherja. Á 44. mínútu var svo brotið á Ingþóri Björgvinssyni innan vítateigs og Hamar fékk vítaspyrnu. Samúel Arnar tók spyrnuna sem markvörður gestanna varði en Mateusz Lis náði frákastinu og skoraði af öryggi. Hamar átti að fá annað víti í næstu sókn þegar boltinn fór í höndina á varnarmanni Einherja en dómarinn dæmdi ekki og staðan var 1-2 í hálfleik.

Hvergerðingar voru sprækari í upphafi síðari hálfleiks en gekk illa að skapa sér færi. Gestirnir lágu til baka lengst af síðari hálfleik og treystu á skyndisóknir en þær nýttust ekki. Þegar um fimmtán mínútur voru eftir fengu Einherjamenn besta færi síðari hálfleiks eftir aukaspyrnu en sóknarmaður þeirra lyfti boltanum rétt yfir markið úr opnu færi.

Lokamínúturnar voru magnþrungnar en Hamarsmenn náðu þá að skora tvö mörk sem bæði voru dæmd af og voru dómarnir vægast sagt vafasamir. Logi Geir Þorláksson skoraði með skalla á 90. mínútu en var dæmdur rangstæður og í uppbótartíma skoraði Ingþór Björgvinsson draumamark utan af kanti í samskeytin fjær en aðstoðardómarinn kom Einherja aftur til bjargar og dæmdi hrindingu í teignum. Á þessum tímapunkti voru Hamarsmenn orðnir manni færri en Sölvi Víðisson hafði fengið rauða spjaldið eftir að mark Loga var dæmt af – en Sölvi hreytti einhverju ósæmilegu í margumtalaðan aðstoðardómarann.

Þrátt fyrir fína baráttu í lokin tókst Hamarsmönnum ekki að fá neitt út úr leiknum. Jafntefli hefði ekki dugað liðinu til að halda vonum sínum um veru í 3. deildinni gangandi en tapið þýðir að Hvergerðingar eru fallnir og leika því í 4. deildinni að ári.

Áhorfendur á leiknum í kvöld voru 35 talsins og stór hluti þeirra frá Vopnafirði.

Fyrri greinViðar og Jón Daði valdir í A-landsliðið
Næsta greinSelfyssingar nánast búnir að bjarga sér